Um okkur

Fagsvið ráðgjafar

Fag­svið ráð­gjaf­ar

Fagsvið ráðgjafar veitir starfsfólki og stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðgjöf um lögmæta málsmeðferð, vandaða stjórnsýsluhætti og úrlausn einstakra mála þegar eftir því er leitað.

https://images.prismic.io/borgarvernd-web/946ca451-a579-49b6-a84c-085e539a7344_mi%C3%B0borgin+ve%C3%B0urbl%C3%AD%C3%B0a+%289%29.jpg?auto=compress,format

Fagsvið ráðgjafar hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf annast m.a. ráðgjöf við borgarbúa, umbætur í stjórnsýslu og stjórnsýslufræðslu fyrir starfsmenn borgarinnar. Byggt er á þeim grunni að styrkja tengsl milli borgarbúa og borgarkerfis og með því stuðlað að auknu réttaröryggi borgarbúa hvað varðar stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu Reykjavíkurborgar jafnframt því að vera aðhald fyrir borgarkerfið.

Fagsvið ráðgjafar veitir borgarbúum leiðbeiningar og ráðgjöf í málum er varða Reykjavíkurborg og málsmeðferð erinda.

Fagstjóri ráðgjafar er ráðgjafi borgarbúa.

Helstu verkefni fagsviðsins lúta að leiðbeiningum og ráðgjöf, veita útskýringar á ákvörðunartöku Reykjavíkurborgar og bjóða sáttamiðlun og einnig eru mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði. Fagsvið ráðgjafar kemur jafnframt að umbótum í stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar, býður upp á fræðslu og kennslu og veitir Reykjavíkurborg leiðbeiningar og ráðgjöf vegna málsmeðferðar í einstökum verkefnum.

Fagsvið ráðgjafar tekur ekki til meðferðar kvartanir er lúta að

• efnislegri umfjöllun um pólitískar ákvarðanir, þ.m.t. ákvörðunum um þjónustustig og málum sem borgarstjórn hefur fjallað um og tekið ákvörðun um

• álitaefnum sem varða starfsmannamál borgarinnar eða störfum og starfsaðferðum einstakra starfsmanna

• álitaefnum sem bera má undir æðra stjórnvald

• álitaefnum sem þegar eru til umfjöllunar hjá lögbundnum úrræðum, svo sem hjá stjórnsýslunefndum, umboðsmanni Alþingis eða dómstólum

Hver sá sem hefur lögvarinna og einstaklingslegra hagsmuna að gæta getur kvartað til fagsviðs ráðgjafar. Hver sem er getur kvartað vegna háttsemi Reykjavíkurborgar sem snertir umtalsverðan fjölda borgarbúa, að því skilyrði uppfylltu að háttsemin varði hann að einhverju leyti.

Kvörtunum verður að hafa verið beint til viðkomandi sviðs eða fagráðs hjá borginni áður en fagsvið ráðgjafar getur tekið það til skoðunar. Kvörtun skal bera fram innan árs frá því að mál sem um ræðir var til lykta leitt.

Sjá nánar um umboð, heimildir og verkefni fagsviðsins í erindisbréfi er samþykkt var af endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar þann 30. október 2023.

Erindisbréf fyrir fagsvið ráðgjafar