Úttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna

Úttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna

26. júní 2023

Innri endurskoðun og ráðgjöf (IER) gaf út niðurstöður úttektar á viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar þann 5. júní 2023.

Í samræmi við innri endurskoðunaráætlun 2022-2023 var framkvæmd úttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar. Tilgangur úttektar var að skoða heildstætt hvernig viðhaldsstjórnun borgarinnar væri háttað með það að markmiði að finna úrbótatækifæri. Stuðst var við ISO 55001 staðalinn um eignastjórnunarkerfi og voru tekin úr staðlinum helstu viðmið varðandi viðhaldsstjórnun. Sjónum var aðallega beint að stjórnskipulagi og stefnu í viðhaldi eigna, skilgreiningu á eignasafni og kröfum hagsmunaaðila, viðhaldsáætlunum og framkvæmd þeirra. 

Meginniðurstaða úttektar IER er að endurskoða þarf stjórnskipulag Reykjavíkurborgar þannig að það stuðli að skilvirkri eigna- og viðhaldsstjórnun fasteigna. Móta þarf viðhaldsstefnu og markmið sem styðja við heildarstefnu Reykjavíkurborgar. Bæta þarf viðhaldsáætlunarferlið, m.a. með því að innleiða aðferðafræði áhættustýringar við forgangsröðun verkefna, og horfa ætti til lengri tíma við gerð viðhalds- og kostnaðaráætlana en eins árs í senn.  Einnig þarf að bæta vöktun á ástandi eigna og kerfisbundið mat á stöðu þeirra þannig að hægt sé að gera lengri tíma áætlanir um viðhaldsþörf. Jafnframt þarf að gera áætlun um hvernig unnið verður úr uppsafnaðri viðhaldsþörf eigna vegna ónógrar fjármögnunar viðhalds á árunum 2009-2018. Að lokum þarf að bæta verkefnisstjórnunarferla og vinnulag við stærri viðhalds- og endurnýjunarverkefni og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila.

Niðurstöður voru kynntar endurskoðunarnefnd þann 5. júní sl. og síðan kynnt á fundi borgarráðs þann 15. júní sl. Á þeim fundi voru jafnframt kynnt drög að erindisbréfi starfshóps borgarstjóra sem settur er til að vinna að gerð umbótaáætlunar varðandi viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar, byggt á stjórnsýsluúttekt IER.

Hér má lesa nánar um niðurstöður úttektarinnar.