Misferlisáhættugreining hjá Reykjavíkurborg

Misferlisáhættugreining hjá Reykjavíkurborg

11. mars 2022

Innri endurskoðun og ráðgjöf hefur lokið við endurmat á stöðu misferlisáhættu hjá Reykjavíkurborg skv. aðferðafræði COSO (The Committee of Sponsoring Organizations of the Treadway Commission) og ACFE (Association of Certified Fraud Examiners).  Greiningin og úrvinnsla er liður í meirihlutasáttmála borgarstjórnar.

Frummat var sett fram í upphafi árs 2018 og kom þá fram að ekki lægi fyrir heildstætt misferlisáhættumat í starfsemi borgarinnar með tilliti til rekstrareininga, sviða og deilda. Skipaðir voru starfshópar á öllum fagsviðum borgarinnar sem skráðu niður áhættuþætti í starfseminni er lúta að misferlismálum, eftirlitsaðgerðir og mat á eftirstæðri áhættu.  Með þessum hætti hafa starfshóparnir skilgreint rúmlega 100 áhættuatburði, sem í mörgum tilfellum eru þeir sömu, en einnig sértæka atburði sem varða sérstöðu starfseminnar.

Endurmat á stöðu misferlisáhættu byggir á áhættumati 266 viðmiða innan fimm meginþátta innra eftirlits. Við matið var m.a. notast við ýmsar verklagsreglur og stefnur borgarinnar, viðhorfskannanir, fyrri úttektir á sviði innri endurskoðunar og viðtöl við sérfræðinga á kjarna- og fagsviðum um helstu eftirlitsaðgerðir. Niðurstaða áhættumats fór í jafningjarýni innan Innri endurskoðunar og ráðgjafar.

Frá frummati árið 2018 hefur orðið jákvæð framvinda, einkum þar sem misferlisáhættumat rekstrareininga var ekki til staðar við gerð frummats.

Innri endurskoðun og ráðgjöf mun undirbyggja áherslur borgarstjórnar varðandi misferlismál og í þeim úttektum þar sem könnuð er virkni eftirlitsaðgerða verður misferlis- og sviksemisáhætta ávörpuð, hér eftir sem hingað til.