Úttekt lokið á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum

Úttekt lokið á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum

28. apríl 2022

Innri endurskoðun og ráðgjöf hefur lokið úttekt á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum.

Í Reykjavíkurborg eru sex sjálfstætt starfandi grunnskólar og sautján sjálfstætt starfandi leikskólar, auk þess sem tveir grunnskólar reka fimm ára deildir á leikskólastigi. Árið 2021 nam rekstrarframlag til sjálfstætt starfandi grunn- og leikskóla 4,5 ma.kr., þar af var rekstrarframlag til leikskóla 2,9 ma.kr. auk húsnæðisframlags 311 m.kr. Samkvæmt þjónustusamningum greiðir Reykjavíkurborg framlag með að hámarki 801 grunnskólanema og um 1.500 leikskólanema.

Markmið úttektar á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum var að kanna hlítni við samninga og hvort fjármunum sé veitt í samræmi við þjónustusamninga skóla- og frístundasviðs við skólana, jafnframt því að yfirfara fyrirkomulag greiðslu rekstrarframlags, umsýslu, eftirfylgni og virkni innra eftirlits.

Í úttektinni voru settar fram ábendingar er varða einkum gjaldskrá leikskóla og skort á viðmiðum og viðbrögðum ef leik- eða grunnskóli er ekki rekstrarhæfur. Settar eru fram alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga, einkum hjá sjálfstætt starfandi leikskólum.

Stjórnendur hafa rýnt niðurstöður úttektarinnar og er viðbragða þeirra getið í skýrslunni.

Nánar má lesa um niðurstöður í skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar.